Ferðavefur Norðurlands vestra


Flúðasiglingar



Golf



Gönguleiðir



Jeppaferðir



Hestamennska



Litbolti



Réttir



Selaskoðun



Skíði



Sigling



Sundstaðir



Sportveiði



Nánar um gönguleiðir í Skagafirði





Það er gaman fyrir göngugarpa að koma í Skagafjörð. Fjalllendið allt umhverfis láglendið í Skagafirði býður upp á skemmtilegar óbyggðaferðir, miserfiðar allt eftir óskum hvers og eins. Tilvalið er að ganga á Molduxa (706 m.y.s.) fyrir ofan Sauðárkrók og Tindastól (989 m.y.s.) við utanverðan Skagafjörð. Einnig er vinsælt að ganga á Mælifellið. Gefin hafa verið út göngukort af vestanverðum Skagafirði og eru þar fjölmargar leiðir merktar inn á auk leiðarlýsinga.

Mælifellshnjúkur - 1138 mys
Vegalengd um 2x3 km. Um 630m hækkun, göngutími um 4 klst.

Mælifellshnjúkur 1138 m.y.s. er af mörgum talinn eitt af einkennistáknum Skagafjarðar og víst er að hann sést víða að, þar sem hann gnæfir yfir miðju héraðinu í suðri. Hann er talinn sjást úr 10 sýslum landsins (af rúmlega 20), útsýn af Mælifellshnjúki er því mikil og víðfeðm. Austan undir hnjúknum er um 700 m. hár hjalli úr basalti, Hamraheiði og rís hnjúkurinn upp af honum en daldrag grunnt á milli. Efsti hluti hnjúksins er úr hörðu móbergi og bólstrabasalti og hafa verið leidd rök að því að hann sé leifar af fornu eldfjalli, frá sama tíma og eldstöðvarnar um norðanverðan Skagafjörð.

Þó Mælifellshnjúkurinn sé ekki hærri en raun ber vitni, þá er einstakt útsýni af honum en það er vegna þess hve hann stendur stakur og sunnarlega í héraðinu, þannig að það eru engin há fjöll sem skyggja á hann. Í góðu skyggni má sjá vestur um til Strandafjalla, Snjófjalla vestan Holtavörðuheiðar og sumir segja allt vestur á Snæfellsjökul. Jöklarnir á miðhálendinu eru að sjálfsögðu fyrirferðamiklir og sjá má hluta Kerlingarfjalla en einnig Hágöngur við Sprengisandsleið, Tungnafellsjökul, Bárðarbungu, Herðubreið, Dyngjufjöll, Trölladyngju og jafnvel er mögulegt að sjá Snæfell í austri. Ganga á Mælifellshnjúk í góðu skyggni er því fyrirhafnarinnar virði. Leiðin er stikuð.

Austurdalur
Er austasti dalur Skagafjarðar, djúpur og þröngur. Þar eru skógarleifar í Jökulsárgili, skammt frá Merkigili og í Fögruhlíð í miðjum dalnum. Um dalinn fellur Austari-Jökulsá og var hún mikill farartálmi, en kláfferja er á henni við eyðibýlið Skatastaði. Létt og skemmtileg gönguleið að ganga inn Austurdal og mögulegt er að gista í skála Ferðafélags Skagfirðinga Hildaseli. Göngubrýr eru á Ábæjará og Tinná.

Merkigil
Hrikalegt gil sem er á milli bæjanna Gilsbakka á Kjálka og Merkigils í Austurdal. Stígur er yfir gilið og var þar áður eina samgönguleiðin við Austurdal. Vinsælt er að ganga gilið frá Gilsbakka og yfir að bænum Merkigili.

Bólugil
Það stendur fyrir ofan eyðibýlið Bólu í Blönduhlíð, mikið gljúfragil með standbergi. Þjóðsagan segir að gilið fengi nafn sitt af tröllskessu er Bóla hafi heitið. Hún settist að í gilinu og fór ránshendi um bæina í nágrenninu. Loks var henni ráðinn bani með því að drekkja henni í hyl í Bóluá. Hægt er að ganga upp fyrir gilið á gilbarminum og niður hinumegin.

Kotárgil
Í Norðurárdal er hrikalegt klettagljúfur er nefnist Kotárgil. Úr því fellur áin Kotá. Það er merkilegt fyrir þær sakir að þar má finna mikla steingervinga, aðallega för eftir trjáboli. Gönguslóð er eftir gilbotninum og þarf sumstaðar að stikla á steinum yfir ána þar sem hún rennur upp við klettaveggi.

Tindastóll
Ef ekið er út Skagafjörð í átt að Sauðárkróki blasir fjallið Tindastóll við. Það er 989 m.y.s. og eitt mesta fjall sýslunnar um 20 kílómetra langt. Í fjallinu vestanverðu er skíðasvæði Skagfirðinga. Fjallið er að mestu úr blágrýti en einnig finnst líparít að suðaustanverðu. Ýmsar þjóðsögur eru tengdar Tindastóli og meðal annars var sagt að hann geymdi óskastein. Ein sagan segir að risi byggi í fjallinu sem réri daglega út til Drangeyjar til fuglaveiða. Merkt gönguleið er upp á Tindastól. Vegalengdin er um 2x3km, 650m hækkun göngutími 1 ½ klst.

Þórðarhöfði
Þórðarhöfði gengur út í sjó við austanverðan Skagafjörð, norðan Hofsóss. Höfðinn er forn eldfjallarúst og er gígskál í toppi hans. Merkt gönguleið er um höfðann, en gæta skal þess að trufla ekki huldufólkið sem sagt er að búi í höfðanum. Gengið er frá Höfða á Höfðaströnd um Höfðamöl 2,7km hring um höfðann. Mesta hæð á Herkonukletti 199 m.y.s.

Glerhallavík
Glerhallavík er vík undir Tindastóli utan við Reyki á Reykjaströnd. Þar finnast kvartssteinar, glerhallar, sem víkin dregur nafn sitt af. Skemmtileg gönguleið er frá Reykjum í víkina, með ströndinni, en taka skal fram að bannað er að taka steina úr víkinni.

Tröllaskagi
Tröllaskagi er skaginn nefndur sem er á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Hann er helsta hálendi á Íslandi og mjög hrikalegur. Þar liggja fornar leiðir á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar og má finna marga jökla á skaganum. Þessar fornu leiðir eru orðnar vinsælar gönguleiðir.

Fleiri gönguleiðir sé að finna á göngukortunum sjálfum.


Til baka



Hvammstangi Blönduós Skagaströnd Sauðárkrókur Varmahlíð Hólar Hofsós

Góðir grannar: Strandir